halldor.kona

Helstu grunnþættirnir í list Halldórs Ásgeirssonar eru jarðeldurinn, vatnið, ljósið, vindurinn og sögurnar í teikningunum. Allir þessir þættir mynda síðan innbyrðis tengsl sem spanna allan listferilinn sem hófst í lok áttunda áratugarins.

Halldór lagði ungur land undir fót og gerði heimshornaflakkið að markvissri uppsprettu myndlistarsköpunar og úrvinnslu ferðaminninga að myndheimi sem birtist í teikningum, innsetningum og gjörningum, þar sem hann vinnur m.a. með fána, liti, myndtákn, hraunbræðslu og vatn. Sú aðferð hans að nota endurtekninguna til listsköpunar minnir á hringrás náttúrunnar og tímann sem líður, ferðina sem var farin, það sem gerðist – þótt staðir og atburðirnir sjálfir birtist ekki áhorfandanum öðruvísi en litur, tákn eða minning um ljós.

List Halldórs hefur ætíð verið samofin lífi hans og ferðum um heiminn. Tengslin á milli heimshluta koma berlega í ljós í hraunbræðsluverkum hans er sýna fram á sömu útkomu á ólíkum stöðum með því að endurvekja eldgosið. Þegar hraun er logsoðið bráðnar það og ummyndast jafnhraðan í svartan glerung, kólnunin í andrúmsloftinu er svo snögg að hraunið harðnar á miðri leið ef það er látið drjúpa og myndar þannig hárfína svarta þræði. Kynningarmyndin er gott dæmi ; andlit listamannsins og stúlkunnar eru þakin hraunglerungi úr sitt hvoru eldfjallinu – einu kínversku og öðru íslensku svo að úr verður einn samruni manns og náttúru.

 

Halldór Ásgeirsson er fæddur í Reykjavík 13.október 1956 og nam myndlist við Parísarháskóla nr.8 á árunum 1977 – 80 og 1983 – 86. Halldór hefur sýnt og starfað víða um heim s.l. 35 ár.

red.line